skip to Main Content
Að Iðka Mannréttindi

Að iðka mannréttindi

Þvílík forréttindi að fæðast á Íslandi, með aðgang að hreinu vatni, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, réttarkerfi og menntakerfi. Þvílík forréttindi að alast hér upp og geta menntað mig, stofnað fjölskyldu, fjárfest í eigin húsnæði og þurfa aldrei að líða skort. Ég er svo sannarlega í mikilli forréttindastöðu í okkar samfélagi og sérstaklega á heimsvísu. En ég gleymi því stundum. Alltof oft reyndar.

Ég er nefnilega ekki bara í forréttindastöðu, ég hef líka upplifað mismunun, fordóma og annað ofbeldi. Mér hefur verið sagt að ég sé menguð af því ég er stelpa, að ég sé heimskari af því ég kvenkyns, að ég geti ekki hitt og þetta á grundvelli þess að vera kona. Ég hef upplifað kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi oftar en ég get eða kæri mig um að muna. Ég hef þurft að sitja undir niðurlægjandi athugsemdum og bröndurum sem einkennast af karlrembu og nauðgunarmenningu. Mánudaginn eftir að mér var nauðgað í partýi, mætti ég til vinnu á karlavinnustað og karlkyns vinnufélagi minn spurði mig hvernig hefði verið í partýinu. Uppfull af skömm og sektarkennd kom ég því út úr mér að ég hefði drukkið of mikið og drepist og ekki komist á ballið. „Nú, og var enginn sem nýtti sér það“ sagði hann hlæjandi og gekk í burtu á meðan ég sat eftir frosin, með steypuklump í maganum og langaði að deyja.

Að halda á lofti fordómum og neikvæðum staðalmyndum af fólki, finnast það óæðra eða annars flokks og beita það ofbeldi af einhverju tagi eru allt athafnir sem vega að virðingu fyrir mannlegri reisn manneskjunnar eða hópsins sem um ræðir. Þegar ég hef einblínt á hvernig svona ofbeldi og virðingarleysi bitnar á mér og mínum líkum hef ég verið gjörn á að detta í sömu gryfju og þeir sem beita þessum aðferðum sem mér er svo mikið í mun að berjast gegn. Það er vont fyrir egóið að átta sig á þessu, egóið sem vill trúa að ÉG sé betri en þeir sem beita ofbeldi og mikið krumpast elsku egóið mitt þegar ég segi það upphátt. En ég veit innst inni að það er eina leiðin.

„Be the change that you wish to see in the world“ á Gandhi að hafa sagt. Fyrst þegar ég heyrði þessa setningu fann ég samhljóm með henni. Þessi setning hefur haft vaxandi áhrif á mig síðustu ár og mér finnst ég vera að að skilja betur og betur hvað hún hefur djúpstæða merkingu.

Ef við ætlum að skipta heiminum upp í gott fólk og vont fólk, þá er nokk ljóst að „við“ verðum alltaf góða fólkið og „hinir“ vonda fólkið. Þá berum „við“ enga ábyrgð og þurfum aldrei að líta í eigin barm, en getum kennt „hinum“ um allt sem miður fer og skammað þá fyrir að hegða sér ekki öðruvísi.

Ef það er eitthvað sem vísindi og trú eiga sameiginlegt þá er það hugmyndin um að allt sé eitt. Þetta er kjarna boðskapur allra trúarbragða og það sem skammtafræðin er alltaf að leiða okkur betur og betur fyrir sjónir. Þetta er svo djúpur sannleikur að takmarkaður mannshugurinn okkar, sérstaklega egóið, á afar erfitt með að sjá handan aðskilnaðarins. Í rauninni erum við öll öldur á hafi lífsins, sem rísum og föllum og rennum svo aftur saman við uppruna okkar. Afhverju skiptir þetta máli? Þetta skiptir öllu máli ef maður ætlar að iðka boðskap Gandhi‘s. Vert þú breytingin sem þú vilt sjá í heiminum. Taktu ábyrgð á að berjast gegn eigin neikvæðu eiginleikum eða tilhneigingum, því við erum öll tengd órjúfanlegum böndum og það sem ÞÚ gerir hefur áhrif. Þetta er í raun eina leiðin til að hafa áhrif.

Ég trúi á mannréttindi, ég trúi því að heimurinn verði betri ef við tökum öll ábyrgð á því að iðka mannréttindi. Að iðka djúpstæða virðingu fyrir öðrum manneskju og lífinu öllu. Í því felst að ég þarf að taka ábyrgð á sjálfri mér. Ég þarf að vera gagnrýnin á allt sem ég hef tileinkað mér gagnrýnislaust úr menningunni okkar sem viðheldur skaðlegum staðalmyndum og meiðir annað fólk eða réttlætir fordóma, mismunun eða annað ofbeldi.

Ég er ung, hvít, ófötluð, gagnkynhneigð, cis kona. Ég ber ábyrgð á því að vera meðvituð um forréttindastöðu mína, sem þrátt fyrir allt er mjög mikil. Ég er ekki öldruð og þarf ekki að þola þá fordóma að vera álitin einskis virði, eða líða þann þjónustuskort og fátækt sem margt gamalt fólk býr við. Ég er hvorki með útlenskt nafn né dökk á hörund svo ég hef aldrei lent í því að atvinnumsókn mín sé ekki tekin til greina, fá ekki atvinnuviðtal eða þurfa réttlæta að ég sé íslensk á þessum forsendum. Ég er ófötluð og þarf ekki að þola þá gríðarlega miklu vanvirðingu og öráreitni sem fatlað fólk býr við, ég þarf ekki að hugsa um það hvort eða hvernig ég komist framúr á morgnanna, hvort ferðaþjónustubíllinn skili mér seint í vinnu eða skóla, hvort ég komist á aðgengilegt klósett eða inn á veitingstaðinn , bíóið eða barinn, sem vinir mínir ætla hittast á. Ég þarf ekki að réttlæta eða útskýra á neinn hátt mína kynvitund, kyntjáningu eða kynhneigð. Ég passa alveg einstaklega vel inn í hinn samfélagslega ramma vel metinna eiginleika og hlutverka sem almennt er gert ráð fyrir, ég er gift, vel stæð, bý í eigin húsnæði, á tvö börn, er hvorki of feit né of mjó, hvorki of sæt né of ljót með engin sjáanleg lýti sem fólk leyfir sér að stara á, tala um eða koma við og er alltaf að átta mig betur og betur á því hvað þetta fleytir mér langt áfram, hvað fólk er miklu tilbúnara til að hlusta á mig, gefa mér séns, bera virðingu fyrir mér og mæta mér.

Ég þarf að vita þessa hluti og vera tilbúin að læra hvernig forréttindi mín virka. Því annars er ég engu skárri en hver sá sem segir karlrembubrandara eða beitir ofbeldi. Ef ég leyfi mér að nota „þroskaheftur“ eða „hommi“ í neikvæðri merkingu, spyrja fatlað fólk eða hinsegin fólk persónulegra spurninga um heilsufar eða kynlíf, af því MÉR finnst það svo framandi og áhugavert, ef ég leyfi mér að færa manneskju í hjólastól úr stað af því hún er fyrir MÉR, ef ég leyfi mér að alhæfa á neikvæðan hátt um fólk af öðrum kynþætti, trú eða kynhneigð, þá. Tjah.. þá er ég heimsins mesti hræsnari. Því ég geri þá kröfu til annarra að þeir tali af virðingu um konur og stuðli ekki að nauðgunarmenningu í orðavali, drusluskömmun eða bröndurum.

Hvaða manneskja ætla ég að vera? Forréttindafemínisti sem berst bara fyrir réttindum MÍNUM? Að þegar ég fer að vinna á lögmannstofu verði ég með jafn marga hundraðþúsundkalla á mánuði og bekkjarbróðir minn úr lagadeildinni? Ég fæ pínu kjánarhroll því ég veit að ef við ætlum alltaf bara að berjast fyrir bættri stöðu þeirra sem mest hafa forréttindin þá komumst við aldrei almennilega áfram í neinni framþróun. Ég vil hugsa þetta upp á nýtt og í samhljóm við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Skiljum engan eftir! Hugsum þetta út frá stöðu þeirra sem verst hafa það. Við erum kynslóðin sem þarf að taka afstöðu. Samkvæmt Ban Ki-moon erum við fyrsta kynslóðin sem erum í þeirri stöðu að geta útrýmt fátækt en á sama tíma síðasta kynslóðin sem getur gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir hnattræna hlýnun jarðar.

Ég ætla að taka mína ábyrgð, hvað gerir þú?

-Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir

Back To Top