skip to Main Content
Klaustur Raustur Og Kúgun Hversdagsins

Klaustur raustur og kúgun hversdagsins

Hefðu þessir klaustur þingmenn bara sest niður yfir bjór og rætt um leti hins eða þessa kollega síns og það tekið upp án vitundar og birt í fjölmiðlum, þá lægi samúð mín öll hjá þeim. Auðvitað könnumst við flest við að segja misgáfulega hluti undir áhrifum eða í einkasamtölum sem okkur grunar ekki að verði síðar á allra vitorði. Staðreyndin er hins vegar sú að það sem þeir sögðu var svo miklu, miklu verra og alvarlegra en nokkurn tímann bara það að vera gripnir á óþægilegu augnabliki.

Fólk sem stærir sig af kaupi kaups á vettvangi stjórnmála, skýru hegningarlagabroti, á hvorki að sitja við völd né setja öðrum leikreglurnar. Samt er það ekki einu sinni það alvarlegasta sem fram kom, heldur einungis staðfesting á því sem við vitum nú þegar um langvarandi meinsemd íslenskrar stjórnmálamenningar. Það alvarlegasta sem afhjúpaðist í samtali klaustur þingmannanna var djúpstæð fyrirlitning og hatur á kvenfólki, fötluðu fólki og hinsegin fólki. Þessi viðhorf eru svo rætin og svo alvarleg að með þeim hafa þessir þingmenn sýnt það og sannað að þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Frelsis- og mannréttindabarátta kvenna, fatlaðs fólks, hinsegin fólks og allra annarra jaðarsettra hópa gengur út á að fá þá sem mest hafa forréttindin til að skilja í hverju kerfislægt ofbeldi og mismunun felst og axla ábyrgð á því að brjóta upp hefðir, venjur, lög og reglur sem viðhalda kúgun þessara hópa.

  • Þingmenn sem gera grín af hugrekki metoo kvenna, sem lýst hafa persónulegum sögum af ofbeldi og mismunun, eiga ekki að hafa aðkomu að því að setja lög um stöðu og réttindi kvenna.
  • Þingmenn sem gera grín af kynferðisofbeldi og hafa nauðgunarbrandara í flimtingum, eiga ekki að að hafa aðkomu að því að breyta réttarkerfinu okkar.
  • Þingmenn sem framandgera fatlaða samstarfskonu sína og líkja henni við dýr, eiga ekki að hafa aðkomu að því að setja lög um málefni fatlaðs fólks eða kjör öryrkja.
  • Þingmenn sem gera sig breiða með hommabröndurum eiga ekki að hafa aðkomu að því að setja lög um málefni eða réttindi hinsegin fólks.

Því hvort sem þeir sögðu þetta undir áhrifum eða ei, þá er alveg ljóst að þingmenn sem deila þessum skoðunum eru hvorki færir um að standa vörð um mannréttindi þessara hópa né vinna gegn kerfislægu ofbeldi og mismunun sem beinist gegn þeim. Þvert á móti er þátttaka þeirra, bein (þeirra sem létu orðin falla) og óbein (þeirra sem gáfu þegjandi eða hlæjandi samþykki sitt fyrir þeim) einmitt hluti af kúgun hversdagsins sem konur, fatlað fólk, hinsegin fólk og annað jaðarsett fólk þarf að búa við á meðan svona hegðun fer fram óáreitt.

Sem samfélag erum við stöðugt að vakna til vitundar um kúgandi áhrif hversdagsins. Hvernig margt smátt verður eitt stórt. Þúsund metoo sögur, sem kannski virðast ekki svo alvarlegar þegar hver og ein er tekin úr samhengi, verða að einu risastóru öskrandi vandamáli kerfislægs ofbeldis þegar þær eru lesnar saman. Hvernig það hefur skaðleg, meiðandi og jafnvel lífshættuleg áhrif þegar við leyfum skoðunum haturs og fyrirlitningar á jaðarsettum einstaklingum og hópum að grassera.

Allir eiga mannréttindi og rétt á því að borin sé virðing fyrri þeirra mannlegu reisn. Við eigum rétt til friðhelgis okkar einkalífs, réttindi sem klaustur þingmönnum er tíðrætt um. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þó margsinnis staðfest að það teljist nauðsynlegt í lýðræðissamfélagi að stjórnmálamenn sæti skerðingu á friðhelgi síns einkalífs þegar kemur að því að opinbera upplýsingar um hvernig þeir rækja starfann.

Það var það sem gerðist hér og kjósendur eru ósáttir við. Krafan er einföld og hún er skýr, þingmenn sem taka þátt í kúgun hversdagsins gagnvart konum og jaðarsettum hópum eru vinsamlegast beðnir um að snúa sér að einhverju öðru. Af virðingu við þeirra mannlega reisn, mótmælum vér öll áframhaldandi setu þeirra á þingi.

Back To Top