skip to Main Content

Um athafnir og athafnaform Vitundar

Athafnir okkar eru sniðnar að öllum manneskjum hvort sem þær aðhyllast enga trú eða ólíkar trúarskoðanir því við höfum alltaf að leiðarljósi það sem sameinar okkur frekar en sundrar. Við virðum trúfrelsi og félagafrelsi þeirra sem til okkar leita og treystum fólki til að velja sér sínar eigin lífsskoðanir.

  • Nafngjöf

Í nafngjöf er fæðingu barnsins og lífsins fagnað og það boðið velkomið í samfélagið. Við förum  yfir grunngildi mannréttinda og hvaða skyldum við höfum að gegna gagnvart hvert öðru á grundvelli þess að vera meðlimir samfélags. 

Við vekjum nánustu aðstandendur til vitundar um ábyrgð sína á að vernda barnið fyrir ofbeldi, styðja barnið til þátttöku í samfélagi sem lítur svo á að allar manneskjur séu, ekki einungis óendanlega verðmætar, heldur einnig jafnar að virði óháð því hversu fjölbreyttar eða mismunandi þær eru. Jafnframt ábyrgð þeirra á að leyfa barninu að vaxa og dafna á eigin forsendum. Við leggjum áherslu á að barnið er dýrmæt manneskja með eigin langanir og þrár.

Við minnum fjölskyldu barnsins á réttindi barna til þess að þroska þá hæfileika sem í þeim búa, bera virðingu fyrir trúfrelsi þeirra og frelsi til sjálfstæðrar hugsunar auk þess að tjá skoðanir sínar, vera aðilar í félögum og hafa rétt til að hafa álit á þeim málefnum sem hafa bein áhrif á þeirra eigið líf.

Hver athöfn er sniðin að þeirri fjölskyldu sem að henni stendur og við hvetjum aðstandendur til að taka virkan þátt í mótun hennar til að mynda með tónlist, söng, ljóðalestri eða annarri listrænni tjáningu. Fólkið okkar fær sjálft að velja hvort athöfnin og tónlistarflutningur innihaldi trúarlega eða lífsheimspekilega texta svo framarlega sem þeir séu í anda jafnréttis og mannréttinda og á engan hátt meiðandi.

Nafngjafa/ungbarna athafnarform:

 Stutt ávarp frá fulltrúa Vitundar.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

Hugvekja.

1-2 Lestrar lesnir  – Valdir í samráði við fulltrúa Vitundar.

Ávarp frá aðstandendum barnsins sé þess óskað.

Foreldrar tilkynna nafn barnsins.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

  • Hjónavígsla

Hjónavígsla á djúpar trúarlegar rætur í menningu fólks og við berum virðingu fyrir samtvinnun menningar og trúararfs. Fólkið okkar fær sjálft að velja hvort athöfnin og tónlistarflutningur innihaldi trúarlega eða lífsheimspekilega texta svo framarlega sem þeir séu í anda jafnréttis og mannréttinda. Við hvetjum fólk til að velja þá texta sem hafa sérstaka merkingu fyrir hjónaefnin, byggja á kærleika og umburðarlyndi og eru á engan hátt meiðandi.

Við hvetjum fólk eindregið til að koma með eigin sýn á  hjónabandið og hvaða gildi þau vilja leggja því til grundvallar. Við fögnum fjölbreytileika mannlífsins og við leggjum okkur fram við að mætaólíkum þörfum fólks.

Hjónavígsluform:

 Ávarp – hjónaefni boðin velkomin og gerð grein fyrir hvers eðlis athöfnin er og hvað í henni felst.

1-2 Lestrar lesnir  – Valdir í samráði vígslumanns og hjónaefna.

Hugleiðing vígslumanns.

Hjónaefnum boðið að ávarpa hvort annað.

Hjónaefni spurð tveggja spurninga.

Hringaathöfn – brúðhjón endurtaka eftir vígslumanni.

Hjónavígsla.

Hjónaefnum boðið að innsigla hjúskaparsáttmálann með handabandi, faðmlagi eða kossi eða öðrum hætti sem þau kjósa sjálf. Velkomið er flytja tónlist milli einstakra liða athafnarinnar í samráði við vígslumann.

  • Útför

Útfarir eiga djúpar trúarlegar rætur í menningu fólks og við berum virðingu fyrir samtvinnun menningar og trúararfs. Fólkið sem óskar eftir útför á vegum Vitundar fær sjálft að velja hvort athöfnin og tónlistarflutningur innihaldi trúarlega eða lífsheimspekilega texta svo framarlega sem þeir séu í anda jafnréttis og mannréttinda. Við hvetjum fólk til að velja þá texta sem hafa sérstaka merkingu fyrir það, byggja á kærleika og umburðarlyndi og eru á engan hátt meiðandi.

Útfarir Vitundar eru persónulegar kveðjustundirættingja og vina hins látna. Fulltrúi Vitundar fer með minningarorð og hugvekju þar sem áherslan er á að fagna lífi viðkomandi. Rík áhersla er á að virða óskir og mæta þörfum fjölskyldu og vina á hvern þann hátt sem unnt er.  

Útfararform:

 Stutt ávarp frá fulltrúa Vitundar.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

Minningarorð og hugvekja.

1-2 Lestrar lesnir  – Valdir í samráði við fulltrúa Vitundar.

Ávarp frá aðstandendum sé þess óskað.

Formleg hinsta kveðja í samræmi við óskir aðstandenda.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

  • Ungmennaathöfn

Í ungmennafræðslunni fyrir athöfnina er lögð áhersla á að fræða ungamennin um eigin mannréttindi og annarra, hvernig hægt sé að bregðast við ef einhver brýtur á mannréttindum þeirra og hvernig hægt er að undirbúa þau til þátttöku í samfélagi sem byggir á jafnrétti og virðingu fyrir mannlegri reisn þannig að þau upplifi hlutverk sitt sem verndarar mannréttinda. Fræðslan miðar að því að undirbúa ungmennin undir þá ábyrgð sem fylgir því að fullorðnast og eiga í samskiptum við annað fólk, virða eigin mörk og annarra og þekkja ólíkar birtingarmyndir samþykkis. Markmið fræðslunnar er að auka víðsýni og skilning á samfélagi án ofbeldis og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og verður skipulögð fræðsla frá ólíkum samtökum og stofnunum sem vinna að mannréttindum jaðarhópa. 

Í ungmennaathöfn bjóðum við ungmennin velkomin í samfélag fullorðinna. Við förum grunngildi mannréttinda og hvaða skyldum við höfum að gegna gagnvart hvert öðru á grundvelli þess að vera meðlimir samfélags. 

Við vekjum þau til vitundar um ábyrgð sína sem þátttakendur í samfélagi með ríka meðvitund um virðingu fyrir mannréttindum og umhverfisvernd. Grunnhugsjón mannréttinda er að allar manneskjur séu, ekki einungis óendanlega verðmætar, heldur einnig jafnar að virði óháð því hversu fjölbreyttar eða mismunandi þær eru. Með umhverfisvernd leggjum við áherslu á meðvitaða neyslu og sjálfbæra þróun. Við fræðum ungmennin um réttindi sín. Þau hafa rétt til að þroska þá hæfileika sem í þeim búa, búa við trúfrelsi, frelsi til sjálfstæðrar hugsunar og tjá skoðanir sínar. Þá hafa þau rétt til að vera aðilar í félögum og hafa álit á þeim málefnum sem hafa bein áhrif á þeirra eigið líf.

Hver athöfn er sniðin að þeirri fjölskyldu sem að henni stendur og við hvetjum aðstandendur til að taka virkan þátt í mótun hennar til að mynda með tónlist, söng, ljóðalestri eða annarri listrænni tjáningu. Fólkið okkar fær sjálft að velja hvort athöfnin og tónlistarflutningur innihaldi trúarlega eða lífsheimspekilega texta svo framarlega sem þeir séu í anda jafnréttis og mannréttinda og séu á engan hátt meiðandi.

Ungmennaathafnarform: 

Stutt ávarp frá fulltrúa Vitundar.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

Hugvekja.

1-2 Lestrar lesnir  – Valdir í samráði við fulltrúa Vitundar.

Ávarp frá ungmenninu eða aðstandendum þess sé þess óskað.

Formlegt ávarp fulltrúa Vitundar til ungmenna.

Tónlist eða önnur listræn tjáning.

Back To Top