skip to Main Content

Grunngildi Vitundar

Vitund er sameiningartákn fyrir þá lífsheimspeki sem liggur til grundvallar mannréttindum og byggir á grunngildum mannlegrar reisnar, jafnréttis, samstöðu og virðingar fyrir fjölbreytileika mannlífsins.

Þrátt fyrir að við séum ólíkir einstaklingar erum við einnig tengd umhverfi okkar og öðru fólki órjúfanlegum böndum og berum ábyrgð gagnvart hvert öðru, lífríkinu og jörðinni. 

Við búum öll yfir jákvæðum og neikvæðum tilhneigingum en það er undir okkur sjálfum komið hvaða hliðar af okkur við ræktum og sýnum öðrum. Í þessu felst gríðarleg ábyrgð, bæði hvers og eins okkar en ekki síður sameiginlega ábyrgð okkar sem samfélags.

Vitund vill stuðla að samfélagi venjulegra borgara sem eru meðvitaðir um umhverfisvernd og mannréttindi og líta á sig virka þátttakendur í að standa vörð um hvoru tveggja. Til þess þarf hver og ein manneskja að finna innra með sér kærleikann, kraftinn og hugrekkið til að taka ábyrgð á sjálfri sér, vera heiðarleg gagnvart sjálfri sér og öðrum og standa upp gegn ofbeldi og óréttlæti. 

Við tökum skýra afstöðu gegn ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum og fordæmum allt ofbeldi. Þrátt fyrir að einstaklingar aðhyllist ákveðnar trúar-, lífheimspeki- eða stjórnmálaskoðunum almennt er alltaf hægt að hafna þeim hlutum þeirra sem vega á einn eða annan hátt að mannréttindum. 

Vitund er vettvangur fólks sem vill horfast í augu við og berjast gegn ofbeldi í allri sinni birtingarmynd. Það getur verið einelti, trúarofbeldi, samviskubitsstjórnun, niðurlægingar, hatursorðræða, þöggun, brandarar eða skoðanir sem meiða fólk af ólíkum valdaminni hópum samfélagsins, fordómar, gagnrýnislaus notkun staðalmynda og annað ofbeldi sem þrífst í þögn annarra.

Við tökum ábyrgð á að viðurkenna hvernig menning og valdakerfi samfélagsins mismuna einstaklingum þannig að sumir séu álitnir minna virði aðrir á grundvelli uppruna síns, stöðu eða annarra eiginleika.

Við hvetjum því meðlimi til að kynna sér þá fordóma og staðlmyndir sem að flokka fólk sem betra eða verra en aðrir og taka upplýsta afstöðu gegn slíkri flokkun. Slíkt er einungis unnt með markvissri og meðvitaðri þjálfun í daglegu lífi með þrotlausan vilja til að gera betur.

Við fordæmum gjörðir ekki manneskjur. Við forðumst stimpla eins og glæpamenn eða ofbeldismenn því skrímslavæðing í umræðunni um ofbeldi heldur bæði þeim sem beita ofbeldi og þeim sem verða fyrir ofbeldi í heljargreipum. Því fyrr sem við getum farið að tala um gjörðir fólks án þess að gera lítið úr persónu manneskjunnar þeim mun fyrr getum við stuðlað að samfélagi þar sem fólk er hvatt til að líta í eigin barm og axla ábyrgð á því ef það fer út fyrir ramman eða fer yfir mörk annarar manneskju. 

Við trúum á takmarkalausa hæfileika fólks til að gera betur, vaxa og verða betri útgáfur af sjálfu sér. 

Við viljum vekja fólk til vitundar um valdakerfi og hvernig rótgrónar hugmyndir og staðalmyndir skaða okkur öll með sérstakri áherslu á upplifun ólíkra jaðarsettra hópa og sérkenni þeirra.

Við viljum vekja fólk til vitundar um ábyrgð sína á að skoða forréttindi sín og valdastöðu og hjálpa því að átta sig á hvar það þarf að setja sjálfu sér mörk í samskiptum við aðra, sérstaklega í tengslum við valdaminni hópa samfélagsins.

Við viljum vekja fólk til vitundar um ábyrgð sína á að hlusta á reynslu ólíkra jaðarsettra hópa samfélagsins um upplifun sína af mismunun, misrétti og fordómum svo við getum öll lagt okkar á vogarskálarnar til að uppræta slíka meðferð.

Við trúum því að það sé til eitthvað sem er stærra en við mannfólkið sem er engu að síður óaðgreinanlegt frá okkur sjálfum og okkar eigin vitund. Við eftirlátum hverjum og einum að skilgreina fyrir sig hvað þeir kjósa að kalla þann lífskraft. Sumir tala um að hlusta á hjartað eða samviskuna, aðrir biðja til guðs eða kyrja til að nálgast búddaeðli sitt. Hvað sem þúkallar þennan kraft og hvernig sem þú nálgast hann, með bænum, kyrjun, hugleiðslu, söng, líkamsrækt, í tengsl við náttúruna eða á annan hátt, þá er hann til og hvert og eitt okkar ber ábyrgð á nálgast hann og virkja í eigin lífi. 

Við erum sammála þeim grunni sem öll trúarbrögð byggja á sem boða kærleika, samhyggð og einingu. Hins vegar trúum við því að hvert eitt og einasta okkar búi yfir sinni skynsemi og hyggjuviti sem ekki eigi að þurfa setja til hliðar til að aðhyllast trúarkenningar. 

Hvort sem þú trúir á náttúruna, guð eða vísindin þá sjáum við að hugsanir okkar, orð og gjörðir hafa áhrif á allt umhverfi okkar. Skammtafræðin segir okkur: “When you change the way you look at things, the things you look at change”. Hvort sem þú aðhyllist vísindi, lífsheimspeki eða trú þá byggir okkar lífsheimspeki á að þú búir yfir gríðarlegum krafti til breytinga sem þú berð sjálf/ur/t ábyrgð á að rækta.

 

Back To Top